Flettingar í dag: 102
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 537
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 63954
Samtals gestir: 7182
Tölur uppfærðar: 4.4.2025 03:32:25
clockhere

Tenglar

23.03.2008 21:48

Tvær skemmtilegar ferðar og ein spes ferð

Jamm síðustu tvo daga höfum við keyrt þónokkuð á sleðunum og höfum við farið í tvær ferðar. Hér koma ferðasögur frá þeim.

Föstudagurinn langi:

Við hittumst uppá heiði (Steingrími) frá kl: 11:30-12:30, það var allur gangur á því hvenær menn komu. Enn við lögðum af stað uppá jökul og þegar við vorum komnir þónokkuð inná Ófeigsfjarðarheiði  þá var ákveðið að fara frekar inní Norðurfjörð. Á leið í N-fjörð þá komum við að nokkuð skemmtilegu "fjalli,, sem heitir Eyrarháls. Þetta er nokkuð skemmtileg hlíð sem þó REFSAÐI okkur tröllunum illa, því í þessari hlíð þá festu bræðurnir
( Atli & Veigar) sig mjög ofarlega. Þetta þýddi það að ég (Aggi) Elli og Jón Ragnar þurftum að skríða upp hlíðina og hjálpa þeim, þetta er án efa það allra erfiðasta sem ég hef gert síðan ég hljóp Maraþon árið 1984. Enn þetta var ekki allt sem þessi hlíð gerði okkur því hann Golli "stökkkóngur,, fór upp alla hlíðina, reyndar svo hátt að hann var komin í sjálfheldu og því var ekkert annað að gera en að taka myndarlega byltu ( reyndar eru menn ekki sammála hve margar byltur hann tók enn við erum sammála því að þær eru ekki færri en 17 og ekki fleiri en 38). Þegar búið var að troða glerinu á sleðan hans Golla þá var haldið niður á Mela, bæði til að komast í kaffi og til að geta gert við sleðan hans Atla enn nokkuð áður hafði stífan brotnað hjá honum. Við erum á því að önnureins gestrisni og hjá henni Böddu á Melum finnst hvergi á Íslandi. Því þegar við komum þá var okkur öllum boðið inn, enn þar sem við vorum 12 í þessari ferð þá var okkur ekki vel við það að troðast allir inní eldhúsið hennar. Það var því einróma samþykki hjá hópnum að drekka nestið fyrir utan bæinn. En það leið ekki 1 mínúta þá var einn af okkar bestu mönnum búinn að smygla sér inn í kaffi og rjómapönnukökur , ég kýs að kalla hann Ö. En þar sem við sátum allir úti þá kom hún Badda með nýsteiktar kleinur fyrir okkur og vil ég þakka  henni Böddu fyrir hönd Tröllana. Þegar við vorum búnir með nestið þá var haldið inn í Norðurfjörð og þar var tankað.  Þótt að það sé ekki löng leið frá  Melum að Norðurfirði þá voru Tröllin orðin svöng aftur enda miklir matarmenn þar á ferð. Og til allra lukku rákumst við á  Gunnstein kaupfélagsstjóra og fengum hann til að opna þessa gríðarlegu verslun fyrir okkur, og vil ég einnig þakka honum fyrir það. Eftir Norðurfjörð þá fórum við upp á Glyfsuna og þar  var tekið án efa stökk ársins og mæli ég með því að þið sem eruð að lesa þennan pistil kíki á myndbandið þegar hann Golli stökk niður af klettum sem eru án efa  52 metrar á hæð (allavegana ekki minna en 8 metrar) Eftir miklar hlíðar æfingar og eina byltu hjá Atla þá var haldið í Djúpuvík til Ása og Evu. Þar var tekin súpa á Hótelinu og skiptst á sögum.Viljum við þakka þeim Ása og Evu fyrir góðar móttökur og góða súpu. En eftir þónokkra stund var ákveðið að fara koma sér heim enda klukkan orðin 20:00. Í stað þess að fara sömu leið til baka þá farið upp kjósarhjallan og frá Trékyllisheiði inná Steingrímsfjarðarheiði. Við vorum að skríða heim um 10 leytið alveg búnir eftir þetta mikla ferðaleg.
Í ferðinni voru Aggi, Elli, Gauti, Atli, Golli, Smári, Ásgeir, Ólöf, Veigar, Jón R, Kristján P, Ölli, og Nonni á Berginu um stund. Þess má geta að hann Gæi var líka með okkur í svona sirkabát 15 mínútur en hann tók allt í einu stefnuna norður og það eina sem við heyrðum var "Á að taka allan daginn í þetta,, og síðan hvarf hann og hefur ekki sést síðan.



Laugardagurinn milli Föstudags og Sunnudags.

Þá var ákveðið að taka smá reysu, en hún mátti ekki vera eins mikil og sú sem var tekin deginum áður því menn voru ennþá með strengi eftir ferðina ógurlegu, ég veit samt ekki hvort það að við skelltum okkur margir á ball á Riisbúð hafi eitthvað að gera með það en svona er þetta. Við allavega vorum við á 8 sleðum upp Kálfanesborgirnar og þaðan var keyrt um Ósdalin og framhjá Fitjum og niður í Staðardalinn beint á móti Stað. Þegar við vorum komnir niður í Staðardalinn þá var keyrt meðfram veginum að Bólstað þar sem við hittum Stökkkónginn Golla.
Eftir stutt stopp héldum við uppá Trékyllisheiði í leit að hengjum og stökkpöllum og þeir eru nú nokkrir þarna uppfrá. Nokkrum æfingum seinna var keyrt uppað skýli og þar var borðað nestið. Eftir mikla samningaviðræður þá komst hópurinn að því að það væri um að gera að renna okkur niður í Sunndal og taka stöðuna á honum Ölla, En á meðan við vorum að borða nestið okkar upp í skýli heyrðum við þessar þvílíku drunur og sprengingar uppúr dalnum, en þetta gat ekki verið neinn annar en hann Ölli Brekkuskelfir.  Enda reyndist þetta rétt hjá okkur því þegar við komum niður að bústaðnum hans þá var hann að leggja í hlað á Skiddanum sínum. Ölli var sprækur sem lækur eins og venjulega og gerði bara grín af sleðakosti okkar, þannig að við ákváðum að sýna honum hvað við gætum. Við keyrðum uppí Goðdalshlíð (Valarborg) og þar voru teknar þvílíkar æfingar, eins og venjulega var hann Golli í fararbroti, enn hann Siggi þór tók samt eitt flottasta stökk sem við höfum séð, það skiptir engu máli hvort það var viljandi eða ekki því þetta var alveg glæsilega gert hjá honum og það er reyndar alveg ótrúlegt að hann hafi sloppið nokkuð heill úr þessu því hann stóð á haus á stýrinu á sleðanum sínum á meðan hann var  á leiðinni niður hlíðinna. Eftir miklar æfingar og mikið mambó þá var stefnan tekin heim og eins og vanalega þegar við erum í ferð þá var tekin kappakstur heim sem enda með því að ég var klukkutíma og og korteri á undan þeim heim.
Í þessari ferð voru: Aggi, Atli, Veigar, Golli, Jón R, Smári, Ásgeir, Siggi  Þ, Örvar.

Efitir þessar tvær ferðar hef ég fengið að kynnast sársauka sem ég vona að engin maður fá nokkurn tíman að kynnast, því harðsperrurnar sem ég er nú með eru líkt og það sé verið að slíta vöðvana úr mér hægt einn af einum.

Sunnudagurinn=Páskadagurinn

Þessi ferð byrjaði reyndar á föstudaginn, þið vitið þennan langa. Það fóru nefnilega nokkrir jeppar uppá jökul þann dag sem er kannski ekki frásögufærandi nema fyrir það að það varð að skilja einn jeppa eftir, og það var engin smá jeppi þar á ferð, þetta var nefnilega Kúlusúkkinn hans Guðmundar Björnssonar. Eitthvað kvef kom í súkkan í alveg blindþreifandibyl þarna uppfrá. Þeir sögðu mér að skyggnið hafi verið orðið svo slæmt að þeir voru hættir að sjá í rúðuþurkurnar á bílunum og til að bæta gráu ofan á svart þá var skafrenningurinn "bylurinn,,ekki lágrétt heldur lóðrétt. hann koma beint niður alveg eins og himnarnir væri að falla niður á þá.  (persónulega verð ég að segja ykkur að ég er ekki alveg að kaupa það en ég segi þetta bara eins og mér var sagt frá þessu). Allavegana þá var bíllinn skilinn eftir og það lá beinast við að það þyrfti að senda Tröll til að ná í kvikyndið. Við lögðum af stað frá Steingrími um klukkan 15:00 og vegna mikillar ÍSÞOKU þá gekk þetta mjög hægt. Það var komin svo mikill klaki á hjálmana hjá okkur að það var farið að heyrast brak í hálsinum á okkur eftir 5 tíma ferðalag, en það er ekkert sem hálskragi lagar ekki á tveimur til þrem vikum.  Eftir að við vorum búnir að keyra í svona þrjá hringi á jöklinum þá loks keyrðum við niður á súkkuna. Sem betur fer gekk vel að koma henni í gang og eftir stutt kaffistop var haldið heim á leið. Þar sem verki okkar Tröllana var lokið þarna uppfrá (það er að sýna þeim leiðinna) þá tókum við kappakstur niður á Steingrím og stungum þá á jeppunum af. Þetta ferðalag sem átti að taka svona sirka 2-3 tíma lengdist uppí 6 tíma, en allt fór þó vel og Súkkan fræga er komin inní skúr og verður þar vonandi næstu árin. Þess má nú kannski geta að ef hann Jósteinn hafi ekki haft GPS tæki þá værum við líklega þarna uppfrá að leyta að hverjum örðum ennþá.
Í þessari björgunarferð voru: Jósteinn, Diddi, Guðmundur Björns, Elli, og Aggi. Reyndar bættust þeir Eddi og Skúli við seinna. En það skiptir kannski ekki máli því þá var allt gamanið búið.





Þessi mynd er Páskamynd 2008

Flettingar í dag: 102
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 537
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 63954
Samtals gestir: 7182
Tölur uppfærðar: 4.4.2025 03:32:25
eXTReMe Tracker